Stjórnin furðar sig á óvissunni

Stjórn Þroskahjálpar á Suðurlandi lýsir furðu yfir óvissu sem fylgir tilfærslu málaflokks fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Stjórn Þroskahjálpar á Suðurlandi ræddi tilfærslu málefna fatlaðra á fundi fyrr í vikunni.

Í ályktun stjórnarinnar kemur fram að mat hafi ekki verið gert á öllum fyrrverandi skjólstæðingum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á suðurlandi. Ekkert liggi fyrir hver hafi með atvinnumál fatlaðra á svæðinu að gera og óvissa sé um stjórnsýslulega skipan varðandi fjölmarga þætti, s.s. trúnaðarmann fatlaðra, velferðarnefnd SASS, þjónusturáð og félagsmálanefndir.

Stjórn Þroskahjálpar leggur áherslu á að reglur félagsþjónustu allra sveitarfélaga á Suðurlandi verði samræmdar. Einnig að þjónusta fatlaðra verði í engu lakari við tilflutning málaflokksins og þeir fjármunir sem fara til málaflokksins renni óskiptir til málefna fatlaðra.