Stjórn SASS vill sjúkraþyrlu á Suðurland

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stjórn SASS vill að sérstakri sjúkraþyrlu með stuttum útkallstíma og sérhæfðum mannskap verði komið á fót. Stjórn SASS leggur jafnframt til að þyrlan verði staðsett á Suðurlandi.

Fyrir síðasta stjórnarfundi SASS lá skýrsla starfshóps velferðarráðuneytisins, sem birt var á dögunum, um mögulega aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi.

Stjórn SASS tekur undir sjónarmið tveggja af sjö fulltrúum í starfshópnum um að leggja til við heilbrigðisráðherra að sérstakri sjúkraþyrlu verði komið á fót, með útkallstíma undir tíu mínútum og sérhæfðum mannskap; lækni og bráðatækni.

Að mati stjórnarinnar er nauðsynlegt að farið verði sem fyrst í tilraunverkefni þar sem þyrlur verði notaðar í sjúkraflug.

Áætlaður kostnaður við sjúkraþyrlu er á bilinu 500 til 880 milljónir króna á ári eftir því hvaða þyrla yrði valin til verkefnisins og hvort einn eða tveir flugmenn yrðu í áhöfn.

Fyrri greinEgill tapaði gegn heimsmeistaranum
Næsta greinHaustviðburðaröð Hendur í höfn að hefjast