Stjórn Lundar ræðir við Smíðanda um byggingu viðbyggingar

Stjórn hjúkrunar- og dvalarheimilisins Lundar á Hellu ákvað á fundi sínum í vikunni að halda áfram viðræðum við verktakafyrirtækið Smíðanda á Selfossi um byggingu nýrrar viðbyggingar við Lund.

Á dögunum var greint frá því að viðbyggingin yrði boðin út aftur þar sem Smíðandi hafði ekki skilað inn uppfærðu tilboði en nokkuð hefur dregist að hefja framkvæmdir frá því verkið var boðið út upphaflega.

Stjórn Lundar fundaði í vikunni með Gesti Þráinssyni, framkvæmdastjóra Smíðanda, þar sem ákveðið var að halda áfram viðræðum við Smíðanda þar sem fyrirtækið átti lægsta tilboðið í upphafi.

Að sögn Björgvins G. Sigurðssonar, eins stjórnarmanna á Lundi, verður verkferlið þannig að ef ekki næst saman við Smíðanda verði rætt við fyrirtækið sem átti næst lægsta tilboðið og þannig koll af kolli. Búið sé að vinda ofan af þeim misskilningi að bjóða eigi út verkið aftur.

Fyrri greinÞórsarar öflugir á útivelli
Næsta greinÖryggi við bryggjurnar aukið