Stjarnan kemur þaki yfir höfuðið

Björgunarsveitin Stjarnan í Skaftártungu stendur í stórræðum þessi misserin en sveitin hefur ráðist í það metnaðarfulla verkefni að koma þaki yfir starfsemina.

Nú hefur sökkull hinnar nýju björgunarsveitarbyggingar verið steyptur og stefnt er að því að koma húsinu upp í vetur ef veður leyfir.

Draumurinn um björgunarsveitarhús er gamall því til að geta sinnt starfi sínu er hverri björgunarsveit nauðsynlegt að eiga tæki s.s. bíl, bát, vélsleða, kerrur o.fl. Í tilviki Stjörnunnar eru þessi tæki dreifð um alla sveit í vélageymslum félagsmanna sem skapar aukna vinnu og lengir m.a. viðbragðstíma útkalla.

Í byjun árs 2010 var því ákveðið að reisa 172 fm stálgrindaskemmu á steyptum grunni, klædda með yleiningum. Þá hófst vinna við að sækja um styrki og leita allra hugsanlegra fjármögnunarleiða.

Lóð undir húsið fékkst í landi Grafar í Skaftártungu og að kvöldi 12. október sl. var skrifað undir lóðarleigusamning milli Stjörnunnar og Ólafs Björnssonar í Gröf.

Þann 27. október tók svo Gísli Vigfús Sigurðsson, formaður Stjörnunnar, fyrstu skóflustunguna og sama dag var grafið fyrir grunninum, möl ekið í hann og afleggjarann að húsinu og mótum slegið upp. Vinnan gekk vel enda félagsmenn flestir bændur, vel tækjum búnir með sturtuvagna, traktora og smíðatól. Einnig voru við uppsláttinn og stjórnuðu honum smiðir frá RR Tréverk á Kirkjubæjarklaustri en þeir hafa tekið að sér smíði hússins.

Björgunarsveitin Stjarnan í Skaftárhreppi er fámenn og lítil björgunarsveit sem sinnir fjölda útkalla á hinu víðfeðma og fjölfarna svæði Skaftártunguafrétti og víðar.