Stígurinn að Brúarfossi orðinn að drullusvaði

Fjöldi þeirra sem skoða Brúarfoss í Bláskógabyggð hefur farið úr 100-200 á ári, upp í allt að 200 á dag. Göngustígur heim að fossinum er eitt forarsvað eftir ágang ferðamanna.

RÚV greinir frá þessu

Brúarfoss er ein af náttúruperlum landsins sem til þessa hefur verið fremur lítið þekkt. Það er nú breytt, en fossins er getið á fjölmörgum erlendum vefsíðum, sem lýsa fegurð hans og sérstökum bláma vatnsins – og upplýsa hvernig maður kemst þangað.

„Þetta var svona lókallinn sem að hérna sem að vissi af þessu og fólkið í bústöðunum í kring sem tók góðan sunnudagsrúnt og löbbuðu hingað með krakkana, en núna eru 20-30 og að mér skilst upp í 200 manns hér á dag, svona á góðum dögum, þannig að það er töluvert mikil aukning, og svæðið hérna ræður alls ekkert við þetta eins og það er. Stígurinn hérna hinum megin er orðinn bara drullusvað, og var aldrei gerður til þess að tækla þennan ofboðslega fjölda sem að sækir hingað núna,“ segir Rúnar Gunnarsson, landeigandi að Efri-Reykjum, í samtali við RÚV.

Rúnar fékk styrk til að lagfæra stíginn, með aðstoð sveitarfélagsins. Hann vill þó ekki hefta aðgang ferðamanna að þessu fallega svæði.

Frétt RÚV

Fyrri greinLiam tryggði sigurinn í blálokin
Næsta greinBúið að loka sundlauginni og íþróttahúsinu