Stéttarfélögin krefja þingmenn svara

Stéttarfélögin á Suðurlandi hafa boðað til fundar með þingmönnum Suðurkjördæmis nk. miðvikudag ásamt ýmsum forsvarsmönnum fyrirtækja á Suðurlandi.

Tilefni fundarins, sem haldinn verður á Eyrarbakka er staða atvinnumála á Suðurlandi og horfur í þeim efnum.

Telja fundarboðendur áríðandi að fá þingmenn kjördæmisins til sín til að ræða málefni fangelsisins á Litla Hrauni, vegamál, virkjanamál, málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og fleira sem brennur á Sunnlendingum.

Þau stéttarfélög sem um ræðir eru Verslunarmannafélag Suðurlands, FIT, félag iðn- og tæknigreina, Foss, félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi og Verkalýðsfélag Suðurlands.

Leggja félögin áherslu á að málefni kjördæmisins séu skoðuð sérstaklega þar sem óttast er að atvinnuleysi geti orðið talsvert meira en er nú þegar í héraðinu, þegar líður á veturinn.