Steinveggur fjarlægður og styttist í opnun

Ákveðið hefur verið að fjarlægja hlaðinn steinvegg við nýtt verslunar- og skrifstofuhúsnæði við Suðurlandsveg 1-3 á Hellu.

Að sögn Gunnsteins Ómarssonar, sveitarstjóra, ákvað stjórn rekstrarfélags hússins að veggurinn skyldi fjarlægður til að bæta aðgengi að húsinu.

“Það verður að horfa til þess að þarna eigi allir greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem veitt er í húsinu, einnig þeir sem ekki eru fráir á fæti,” segir Gunnsteinn.

Hann segir vegginn tekinn niður á næstu vikum og hægt verði að selja efnið sem í honum er.

Nú styttist í að fyrstu leigjendurnir flytji inn í húsið og sem dæmi um það þá er verið að koma upp innréttingum bakarísins Kökuvals sem ráðgerir að opna þar á næstu vikum.