Steinunn Fjóla skipuð skrifstofustjóri í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, hefur skipað Selfyssinginn Steinunni Fjólu Sigurðardóttur í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu umhverfisgæða í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Fjórar stöður skrifstofustjóra í ráðuneytinu voru auglýstar lausar til umsóknar í október í tengslum við breytingar á skipulagi ráðuneytisins. Auk Steinunnar Fjólu voru Jón Ásgeirsson skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu orkumála, Björn Helga Barkarson í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu náttúru- og minjaverndar og Magnús Örn Agnesar Sigurðsson í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu loftslagsmála.

Steinunn Fjóla gegnir í dag embætti skrifstofustjóra á skrifstofu umhverfis og orku í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og er jafnframt staðgengill ráðuneytisstjóra. Hún gegndi embætti skrifstofustjóra skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar í ráðuneytinu á árunum 2024 til 2025, eftir að hafa gegnt embætti yfirlögfræðings ráðuneytisins frá 2022.

Steinunn Fjóla hóf störf í umhverfisráðuneytinu árið 2008, þá sem lögfræðingur á skrifstofu laga og stjórnsýslu, ásamt því að vera staðgengill skrifstofustjóra. Árið 2013 tók hún við embætti skrifstofustjóra á skrifstofu umhverfis og skipulags í þáverandi umhverfis- og auðlindaráðuneyti og sinnti því til ársins 2022. Hún starfaði áður sem fulltrúi og staðgengill sýslumanns hjá Sýslumanninum á Selfossi, sem lögfræðingur á innheimtusviði Íbúðalánasjóðs og sem fasteignasali hjá Lögmönnum Suðurlandi.

Steinunn Fjóla lauk embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands árið 1999. Hún lauk námi til öflunar réttinda til að vera héraðsdómslögmaður frá Lögmannafélagi Íslands 2007.

Steinunn Fjóla er gift Erni Einarssyni framkvæmdastjóra og saman eiga þau tvö börn og tvö barnabörn.

Fyrri greinStoppaðar af eftir spilamennsku alla nóttina
Næsta greinSamstillt átak skapar umhverfi til árangurs