Steinn bauð lægst í stofnlögnina

Gröfuþjónusta Steins á Selfossi bauð lægst í stofnlögn hitaveitu sem leggja á í sumar á Selfossi.

Um er að ræða u.þ.b. 1.700 metra langa stofnlögn frá gatnamótum Engjavegar og Langholts, meðfram Langholti og Suðurhólum niður að Dísarstaðalandi. Lögð verður 1.650 m hitaveitulögn og 1.200 m ídráttarrör fyrir ljósleiðara.

Fjórir verktakar buðu í verkið og hljóðaði tilboð Gröfuþjónustu Steins upp á rúmar 23,3 milljónir króna. Næstlægsta boðið átti Gröfutækni ehf, rúmar 23,7 milljónir króna. Steinberg bauð tæpar 27,9 milljónir króna og Ræktó rúmar 29,6 milljónir króna. Kostnaðaráætlun fyrir verkið hljóðaði upp á rúmar 32 milljónir króna, þannig að öll tilboðin voru undir áætlun.

Verið er að semja við lægstbjóðanda og er reiknað með að verkið hefjist í þessari viku eða næstu. Verkinu á að vera lokið þann 15. ágúst næstkomandi.