Stefnt á 1.000 tonna framleiðslu

Nýtt bleikjueldisfyrirtæki er að hefja starfsemi sína við Þorlákshöfn en félagið hefur keypt gömlu Smárastöðina og vinnur nú að gagngerum breytingum á henni.

Að sögn framkvæmdastjórans Þórðar Þórðarsonar er stefnt að því að framleiða þar um 1.000 tonn af bleikju á ári þegar stöðin verður komin í fulla starfsemi. Stefnt er að því að það verði eftir eitt og hálft til tvö ár.

Aðspurður um kostnaðinn við fjárfestinguna sagði Þórður að hann væri gríðarlegur. Stefnt er á stækkun á stöðinni en kerin rúma um 7.600 rúmmetra en ætlunin er að auka eldisrýmið um 4.600 rúmmetra að því skyldu að nauðsynleg leyfi fáist.

15. maí næstkomandi er stefnt að því að taka inn fyrstu seiðin sem koma frá Fjallableikju ehf. í Grímsnesi. Er fyrsti skammturinn um 60.000 seiði að sögn Ingólfs Arnarssonar eldisstjóra.

Gert er ráð fyrir að ráða fimm starfsmenn nú í upphafi og fimm til sex starfsmenn þegar vinnsla hefst en að sögn Þórðar er ætlunin að vera með alla vinnslu á staðnum.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.