Stefnt að úthlutun lóða næsta vor

Vinna við gerð skipulagsbreytinga á svokölluðum Grímsstaðareit í miðbæ Hveragerðis er hafin en reiturinn er fyrir aftan þar sem nú er Blómaborg.

Um er að ræða byggingarreit þar sem gert er ráð fyrir um 50 íbúðum í blandaðri stærð. Unnið er útfrá tillögum Ark arkítekta, sem urðu hlutskarpastir í samkeppni um hönnun miðbæjarins árið 2007.

Að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur, bæarstjóra, er miðað við lágreista íbúðabyggð, samkvæmt markmiði aðalskipulags. Gera þarf lítilsháttar breytingar á aðalskipulagi og er sú vinna farin í gang. Aldís segir til standa að úthluta þar lóðum í vor eða sumar.

„Við létum vinna þarna skipulagsvinnu fyrir hrun og ekkert varð úr því, en nú finnum við að það eru komin tækifæri til framkvæmda og því munum við hraða skipulagsvinnu,“ segir Aldís.

Hún segir þéttingu byggðar á þessu svæði bæði hagkvæman kost fyrir bæjarfélagið og samfélagslega heppilegan. „Við bindum miklar vonir við þennan reit, þarna eru þegar komnar götur og með þessu nýtist innviður bæjarfélagsins miklu betur en að ýta byggð utar,“ segir Aldís.

Eftirspurn eftir húsnæði í Hveragerði hefur verið mikil á undanförnum misserum, bæði til leigu og sölu. Nýverið fóru í sölu raðhús með níu íbúðum og seldust þær allar strax, nánast áður en hafist var handa við byggingu þeirra.

Fyrri greinHalldór ráðinn þjálfari U17 landsliðsins
Næsta greinListakvöld með ritlist, tónlist og myndlist