Stefnir í metár í framleiðslu bílnúmera

Tveir til þrír fangar starfa að jafnaði við framleiðslu bílnúmera á Litla-Hrauni. Þeir hafa þurft að hafa snör handtök síðastliðnar vikur og mánuði þar sem hvert metið á fætur öðru hefur verið slegið.

Stærsta árið frá upphafi framleiðslunnar var árið 2007 þegar framleidd voru 70.430 númer. Það met gæti orðið slegið á þessu ári en í dag þann 23. maí hafa verið framleidd tæplega 38 þúsund bílnúmer, þar af tæplega 10 þúsund númer núna í maímánuði.

Til samanburðar má benda á að allt árið 2009 voru framleidd 15 þúsund númer og í fyrra, árið 2016, voru þau 69 þúsund.

Frá þessu er greint á Facebooksíðu Fangelsismálastofnunar.

Fyrri greinFjögur HSK met sett á fallegum blíðviðrisdegi
Næsta greinPílagrímaganga frá Strandarkirkju að Skálholti