Stefnir á ólympíuleikana eftir fjögur ár

Egill Blöndal er 16 ára Selfyssingur sem hefur æft Júdó í fjögur ár. Fyrir einu og hálfu ári síðan var hann valinn í landsliðið og hefur síðan farið fimm sinnum í keppnisferðir erlendis.

Í þessum fimm ferðum hefur hann fjórum sinnum unnið til verðlauna, nú síðast til bronsverðlauna á Opna sænska mótinu.

Um er að ræða alþjóðlegt mót þar sem um 300 keppendur víðsvegar að úr heiminum tóku þátt. Í flokki Egils voru níu keppendur.

„Þetta eru hörku erfið mót,“ segir Egill sem reynir að undirbúa sig sérstaklega vel fyri þau. „Ég æfi mikið meira í bænum og tek léttara á því í ræktinni. Ég reyni svo að slaka vel á þess á milli, fer í sund og svona.“

Þessi ungi afreksíþróttamaður býst við því að geta stundað sína íþrótt í mörg ár til viðbótar.

„Það er menn sem eru alveg 66 ára í þessu, eins og þjálfarinn minn sem er sextugur,“ segir Egill sem er mjög metnaðarfullur og með markmiðið fyrir næstu fjögur ár alveg á hreinu.

„Það er að komast inn á ólympíuleikana. Það er draumurinn,“ segir þessi hógværi júdókappi að lokum.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.