Stefnan sett til Rómar

Hópur starfsmanna frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands ásamt tveimur mökum, hjólaði frá Feneyjum til Flórens í lok júní sl.

Þetta er í annað sinn sem sami hópur hjólar á Ítalíu en á árinu 2008 var hjólað frá Bolsano til Feneyja. Ferðin nú var því í beinu framhaldi af þeirri ferð.

Hjólaferðin lá um Pódalinn og var hjólað á sveitavegum og hjólastígum sem nær allir voru malbikaðir og liggja meðfram ám, kanölum og stórfljótinu Pó. Gist var í borgunum Mestre/Feneyjar, Chioggia, Rovigo, Ferrara, Ravenna og Flórens og kynntu ferðalangar sér sögu og menningu þeirra en þær eru á meðal meðal fegurstu borga Ítalíu.

Hjólaleiðin lá um svæði þar sem m.a. voru kívíakrar, melónu- og peruakrar ásamt stórum vínekrum. Sólblómakrónurnar voru risastórar á ökrunum og maísakrarnir ótrúlega stórir.

Hópurinn sameinaðist hjólahóp á vegum Vita-ferða og voru samtals 24 ferðalangar í ferðinni, heildarvegalengdin sem hjóluð var, mældist 285 kílómetrar og var hjóluð á sex dögum.

Ferðin tókst í alla staði mjög vel og komu ferðalangar heim hjólamóðir og ánægðir með góða ferð og eru staðránir í að halda í næsta áfanga sem fyrst, en það er leiðin frá Flórens til Rómar.

MYNDATEXTI: Sunnlensku hjólreiðamennirnir Sigríður Kr. Jóhannsdóttir, Erla Guðmundsdóttir, Jóhanna Ö. Guðjónsdóttir, Aðalheiður, Guðmundsdóttir, Samúel Smári Hreggviðsson, Margrét Ófeigsdóttir, Magnús Jóhannsson og Sigurveig Guðmundsdóttir.