Grjóthrun úr Ingólfsfjalli orsakaði rafmagnsleysi

Brotna staurastæðan við rætur Ingólfsfjalls. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Orsakir rafmagnsleysisins á Suðurlandi í gærkvöldi voru þær að grjót hrundi úr Ingólfsfjalli og hafnaði á staurastæðu í Selfosslínu 1 austan við Tannastaði og braut hana. 

Selfosslína 1 flytur rafmagn frá Ljósafossi á Selfoss en þegar línan sló út varð útleysing í tveimur spennum í spennistöðinni á Selfossi.

Rafmagnslaust var í Árborg og stórum hluta Suðurlands í um það bil 25 mínútur.

Starfsmenn Landsnets vinna að viðgerð undir Ingólfsfjalli í dag. Greinilegt er að talsverðar leysingar eru í Ingólfsfjalli þar sem nýjar lækjarsprænur renna víða niður hlíðar fjallsins.

UPPFÆRT KL. 18:50: Viðgerð á línunnni lauk nú síðdegis og samkvæmt tilkynningu frá Landsneti var Selfosslína 1 komin aftur í rekstur um kl. 18:06.

Unnið að viðgerð undir Ingólfsfjalli í dag. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Unnið að viðgerð undir Ingólfsfjalli í dag. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Unnið að viðgerð undir Ingólfsfjalli í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

Fyrri greinHergeir og Ragnar léku lausum hala 
Næsta greinÞrjú mörk á lokakaflanum