Starfsmenn Ölfuss fá gjafakort í stað árshátíðar

Þorlákshöfn. Ljósmynd / Chris Lund

Bæjaryfirvöld í Ölfusi hafa samþykkt að færa öllum starfsmönnum sveitarfélagsins átta þúsund króna gjafakort með hvatningu um að gjöfin verði nýtt þannig að fyrirtæki í Ölfusi njóti góðs af.

Árshátíð Ölfuss var aflýst þetta árið vegna COVID-19 en bæjarráð Ölfuss vildi koma til móts við starfsmenn og hvetja þá með þessari gjöf til þess að gera sér dagamun í skammdeginu.

„Árið sem er að líða hefur fært starfsmönnum Sveitarfélagsins Ölfuss óvæntar áskoranir sem þeir hafa leyst með slíkum brag að eftir er tekið. Erfiðum aðstæðum hefur verið mætt af einurð, æðruleysi og með einbeittum vilja til að viðhalda mikilvægri innviðaþjónustu. Þetta ástand hefur á sama tíma komið í veg fyrir að hægt sé að halda reglubundna árshátíð eða umbuna starfsmönnum fyrir vel unnin störf með hefðbundnum hætti,“ segir í bókun bæjarráðs sem vill með þessu sýna þakklæti sitt í verki.

Fyrri greinHríðarveður í kvöld og nótt
Næsta greinBætt aðstaða við Sólheimajökul í þágu öryggis og stýringar