Starfsmaður ION hótela greindist með kórónuveirusmit

Ljós­mynd/​ION Lux­ury Advent­ure Hotel

Einn starfsmaður ION hótela greindist með kórónuveirusmit í gær en hann var utan sóttkvíar.

ION rekur hótel í Reykjavík og á Nesjavöllum og síðastliðinn sunnudag hitti starfsmaðurinn, samstarfsfólk sitt á vorgleði starfsmanna sem fram fór á hótelinu á Nesjavöllum, þá var hann einkennalaus.

Vísir greindi fyrst frá þessu en ION hótel sendi frá sér tilkynningu síðdegis, þar sem þetta kemur fram. Í frétt Vísis segir að viðbúið sé að tugir fólks þurfi að fara í sóttkví.

Starfsmaðurinn hefur ekki verið á vakt á hótelinu frá 7. mars síðastliðnum eða 10 dögum frá því að smitið kom upp. Engir gestir hótelsins eiga því að vera í smithættu.

Starfsmaðurinn sem er einkennalítill ákvað að fyrra bragði að fara í covidpróf í gær þar sem hann átti að mæta á vakt næstkomandi föstudag. Mikið hefur verið brýnt fyrir starfsfólki að halda sig heima ef þau finna fyrir einkennum.

Allir starfsmenn sem sóttu vorgleðina eru nú í sóttkví. Enn sem komið er hefur enginn þeirra fundið fyrir einkennum. Starfsfólk hótelsins vinnur náið með sóttvarnaryfirvöldum að málinu. Smit starfsmannsins kom sem fyrr segir fram í gær en smitrakning stendur yfir og er búist við raðgreiningu í kvöld, samkvæmt sóttvarnarlækni.

Eftir að smitið kom upp hefur öllu eftirliti og leiðbeiningum um sóttvarnir verið fylgt eftir til að tryggja öryggi og velferð gesta og starfsfólks. Búið er að manna allar vaktir og er starfsemi ION Hótela, Sumac og ÓX því óbreytt og verður opin gestum um helgina.

Fyrri greinSuðurstrandarvegi lokað í kvöld
Næsta greinMikill áhugi á störfum í Stekkjaskóla