Starfsleyfi framlengt þrátt fyrir kvartanir íbúa og sveitarfélagsins

Þorlákshöfn. Ljósmynd / Mats Wibe Lund

Fjörutíu og tveir einstaklingar gerðu athugasemdir og lögðust gegn endurnýjun starfsleyfis til fyrirtækisins Fiskmarks í Þorlákshöfn, vegna óþæginda íbúa af völdum lyktarmengunar.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur ákveðið að endurnýja starfsleyfi fyrirtækisins tímabundið til 30. júní á næsta ári. Starfsleyfið er í vinnslu.

RÚV greinir frá þessu.

Í samtali við RÚV segist Elliði Vignisson, bæjarstjóri, hafa vonast til þess að heilbrigðiseftirlitið myndi stíga fastar fram.

„Það eru tugir, ef ekki hundruð kvartana frá íbúum þar sem fundið er að þessari starfsemi, og sama hjá sveitarfélaginu, það lagðist gegn þessari framlengingu því það telur að þessi starfsemi falli ekki að þörfum íbúa. Við höfum farið þá leið að útbúa nýtt svæði innan skipulagsins sem er í góðri fjarlægð frá byggðinni og gerum þar ráð fyrir starfsemi sem þessari. Það var til að láta saman fara þarfir þessara fyrirtækja og þarfir íbúa,“ segir Elliði.

„Íbúar eru eðlilega orðnir langþreyttir á þessari stöðu en við erum að horfa til þess að þrátt fyrir að Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafi þarna valið að fara ekki eftir ábendingu sveitarfélagsins eða íbúa og framlengt þessu leyfi þá sé það alltént ekki nema fram á vor þannig að við horfum fram á bjartari tíma.“

Frétt RÚV

Fyrri greinMargt að skoða í Víkinni
Næsta greinÚtgáfuhóf í Skálholti – Elín syngur