Starfshópur um heilsueflandi samfélag tekur til starfa

Fyrsti fundur starfshópsins. Á myndina vantar þær Tinnu og Kristrúnu. Ljósmynd/visithvolsvollur.is

Í sumar undirritaði Rangárþing eystra samning við embætti landlæknis um að gerast Heilsueflandi samfélag.

Heilsueflandi samfélag er samfélag þar sem tekið er mið af heilsu og vellíðan allra íbúa í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Unnið er heildstætt með áhrifaþætti heilbrigðis og er meginmarkmið starfsins að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa í Rangárþingi eystra.

Ýmislegt hefur þegar verið gert í sveitarfélaginu sem fellur undir markmið Heilsueflandi samfélags eins og t.d. Heilsuverkefnið 60+, viðburðir á haustin undir merkjum Heilsueflandi hausts, gerð heilsustígs og fleira.

Nú hefur verið stofnaður starfshópur sem mun vinna að innleiðingu á þessu verkefni en hann skipa Ólafur Örn Oddsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrí og forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar og er hann formaður hópsins, Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi,  Guðrún Björk Benediktsdóttir, umhverfis- og garðyrkjufulltrúi,  Gyða Björgvinsdóttir, fulltrúi heilsueflandi leikskóla,  Kristrún Ósk Baldursdóttir, fulltrúi Ungmennaráðs,  Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri fulltrúi sveitarstjórnar, Páll Eggertsson, formaður heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefndar,  Svavar Hauksson, fulltrúi félags eldri borgara og Tinna Erlingsdótir, fulltrúi heilsueflandi skóla.

Fyrri greinSelfoss mætir Breiðabliki í undanúrslitum
Næsta greinSkora á stjórnvöld að byggja upp flugbraut í Öræfum