Starfshópur fundar ári eftir að hann var skipaður

Helgi S. Haraldsson, B-lista, vakti athygli á því á síðasta bæjarráðsfundi í Árborg að tveir starfshópar sem skipaðir voru á síðasta ári hafi ekki fundað ennþá.

Annarsvegar er um að ræða starfshóp um uppbyggingu og stækkun á Sundhöll Selfoss sem skipaður var 23. júní í fyrra. Helgi segir að það veki furðu að hópurinn hafi ekki fundað ennþá, þrátt fyrir að töluverðir fjármunir séu í þriggja ára áætlun í uppbyggingu Sundhallarinnar.

Í svari D-listans kemur fram að hópurinn hafi farið í eina vettvangsferð og að fundur hafi verið boðaður í nefndinni í dag, 19. júní, ári eftir að nefndin var skipuð.

Þá lýsti Helgi einnig furðu sinni á því að starfshópur um framtíð mjólkurbúshverfisins á Selfossi hafi ekki fundað ennþá en hópurinn var skipaður í nóvember í fyrra.