„Starfsfólkið hefur unnið kraftaverk á erfiðum tímum“

Verslun Nettó við Austurveg á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Verslunin Nettó á Selfossi hóf í gær að bjóða upp á heimsendingar á vörum til fólks á Selfossi.

Ár er síðan Nettó á Selfossi opnaði netverslun fyrir viðskiptavini sína . Fólk gat þá pantað vörur á heimasíðu Nettó og sótt pakkann í verslunina á Selfossi. En nú geta Selfyssingar fengið vörunar sendar alla leið heim að dyrum.

„Við byrjuðum að keyra út fyrir utan höfuðborgina um mitt síðasta ár og það fór ágætlega af stað. Þegar fólki fjölgaði í sóttkví og við fórum að huga að því hvað við gætum gert fyrir viðkvæma einstaklinga og eldri borgara var þessi ákvörðun tekin. Eins fundum við að fyrirspurnum fjölgaði mjög hratt á Selfossi og nágrenni og þá var þetta ekki spurning,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, í samtali við sunnlenska.is.

Gunnar segir að fyrst um sinn sendi þau aðeins heim á Selfossi. „En við erum að skoða alvarlega hvort, hvernig og hvaða kostnaður væri að stækka svæðið – undirtektirnar munu samt ákvarða framhaldið,“ segir Gunnar og bætir því við viðtökurnar í gær, fyrsta daginn í heimsendingum, hafi verið mjög góðar.

Gunnar segir að það sé ekki bara fólk í áhættuhópi eða fólk í sóttkví sem nýti sér vefverslun Nettó á Selfossi heldur sé þetta þverskurður viðskiptavina þeirra.

Netverslunin komin til að vera
„Ef það er eftirspurn eftir þjónustunni munum við halda þessu áfram eftir COVID-19. Ég held að núna hafi orðið breyting á neytendahegðun til framtíðar og netverslun er komin á þann sess sem hún hefði orðið eftir nokkur ár ef ekki hefði komið til þessara hamfara,“ segir Gunnar en verslun matvöru á netinu hefur margfaldast undanfarnar vikur á Íslandi.

Nettó á Selfossi er ein þeirra fjölmörgu verslana á landinu sem býður fólki í áhættuhópi fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu að koma og gera innkaupin sín fyrir auglýstan opnunartíma. „Við höfum fundið mjög mikla velvild í okkar garð og þetta mælist mjög vel fyrir,“ segir Gunnar.

Stoltur af starfsfólkinu sínu
Mikið hefur mætt á verslunarfólki á landinu eftir að COVID-19 kom upp. Nettó á Selfossi er þar engin undantekning. „Við höfum verið að bæta við okkur fólki en það hefur hingað til verið aukið álag á starfsmenn og dagar hafa lengst í kjölfarið,“ segir Gunnar.

„Nú erum við búin að skipta upp starfsmönnum í fjögurra manna teymi og verður því erfiðara að lengja dagana því starfsfólkið má ekki hittast. Þetta gerum við til þess að tryggja það að við getum haldið úti þjónustu ef einhverjir starfsmenn fá veiruna. Með þessu áframhaldi munum við bæta enn meira við okkur af starfsmönnum,“ segir Gunnar.

„Starfsfólkið hefur unnið kraftaverk á erfiðum tímum. Álagið á okkar framlínufólk er gríðarlegt þessa dagana og maður er ótrúlega stoltur að fylgjast með eljusemi þeirra, vilja til að leita lausna en á sama tíma að halda starfsánægjunni,“ segir Gunnar að lokum.

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóra verslunarsviðs Samkaupa. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinFordæmir vinnubrögð stjórnar KKÍ
Næsta greinGul viðvörun: Stormur og hláka