Starfsfólk Kirkjuhvols á toppi Eyjafjallajökuls

Starfsfólk Kirkjuhvols við Goðastein. Ljósmynd/VisitHvolsvollur.is

Árleg vorferð starfsfólks á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli var farin í síðustu viku í sól og blíðu.

Farið var með South Coast Adventure ferðaskipuleggjendum á Hvolsvelli og voru farartækin þrír ofurjeppar. Lagt var af stað frá Hvolsvelli og lá leiðin beint upp á Eyjafjallajökul þar sem allir nutu útsýnisins sem er einstakt í svona góðu veðri.

Ferðanefndin bauð upp á gott nesti á toppi jökulsins, við Goðastein, sem er nauðsynlegt í svona ferð. Af toppi Eyjafjallajökuls var keyrt inn í Þórsmörk, þar var grillað, gengið um og spilað eins og lög gera ráð fyrir á þessum merka og fallega stað. Keyrt var til baka um kvöldið og allt starfsfólk endurnært og ánægt með ferðina.