Starfsfólk HSU Sunnlendingar ársins 2020

Ólöf Árnadóttir og Guðmundur Karl fyrir utan Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi í dag. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Lesendur sunnlenska.is kusu starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Sunnlendinga ársins 2020. Starfsfólk HSU fékk örugga kosningu en þátttakan í atkvæðagreiðslunni var góð að vanda.

Heimsfaraldur COVID-19 tók yfir árið 2020 og mikið mæddi á starfsfólki í heilbrigðisþjónustu. Á Suðurlandi var fyrsta tilfellið staðfest í byrjun mars og í kjölfarið var lokað fyrir heimsóknir á sjúkrastofnanir og hjúkrunarheimili. Sýnatökur vegna COVID-19 fóru fram á HSU en eitt stærsta verkefni stofnunarinnar var þegar skima þurfti rúmlega 600 nemendur og starfsmenn Sunnulækjarskóla á Selfossi fyrir veirunni á einum degi. Það fór síðan að birta til til í árslok þegar bólusetningar hófust en þeir fyrstu sem voru bólusettir á Suðurlandi voru íbúar á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstarfsmenn í bráðaþjónustu á HSU.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur tvö sjúkrahús og níu heilsugæslur á tíu starfsstöðvum í víðfemasta heilbrigðisumdæmi landsins. Hjá stofnuninni starfa um 500 starfsmenn.

Viðurkenningin var veitt í dag en fyrir hönd starfsmanna HSU var það Ólöf Árnadóttir, hjúkrunardeildarstjóri á Selfossi, sem tók við viðurkenningunni úr hendi Guðmundar Karls Sigurdórssonar, ritstjóra sunnlenska.is.

Einhugur hjá starfsfólkinu að standa sig vel
„Þetta er búið að vera gríðarlega viðburðaríkt og lærdómsríkt ár. Við erum búin að umbylta allri starfsemi hjá stofnuninni, hvort sem það er í heilsugæslu, á hjúkrunardeildunum, í sjúkraflutningum eða ræstingum. Við erum búin að þurfa að hugsa út fyrir kassann og endurskipuleggja allt. Það hefur mikið mætt á öllum starfsmönnum í þessu en það hafa allir lagst á eitt og þess vegna hefur þetta tekist. Auðvitað er þetta búið að vera erfitt og oft hefur maður ekki vitað hverju maður átti von á þegar maður mætti í vinnuna. Þetta hefur verið gríðarleg áskorun og það er komin mikil þreyta í marga. Það hefur verið mikið álag á starfsfólkið sem hefur margt þurft að takmarka mikið samfélagslega þátttöku sína og hefur tekið það mjög alvarlega. En þetta hefur gengið mjög vel heilt yfir og það er ekki síst vegna þess að það er svo mikill einhugur hjá starfsfólkinu að standa sig vel og það er ekki bilbug að finna á neinum þó að fólk sé orðið langþreytt,“ sagði Ólöf í samtali við sunnlenska.is.

„Við erum gríðarlega þakklát fyrir þessa viðurkenningu og þetta er mikill heiður. Fólk sýnir störfum okkar skilning og það eru allir með okkur í liði og við finnum það klárlega að það er mikil samstaða í samfélaginu. Það auðveldar okkur vinnuna og við þökkum kærlega fyrir okkur,“ bætti Ólöf við.

Aldrei fleiri tilnefndir
Þetta er ellefta árið í röð sem lesendur sunnlenska.is kjósa Sunnlending ársins. Alls fengu sextíu Sunnlendingar atkvæði í kjörinu að þessu sinni og hafa þeir aldrei verið fleiri. Sömuleiðis hafa aldrei jafn mörg atkvæði borist í kosningunni.

Í öðru sæti varð Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, en þetta er í fimmta skiptið sem hann kemst í topp þrjá í kosningunni. Í þriðja sæti í kosningunni varð svo Ása Berglind Hjálmarsdóttir, menningarfrömuður í Þorlákshöfn.

Ritstjórn sunnlenska.is þakkar fyrir góða þátttöku í valinu á Sunnlendingi ársins og óskar starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurlands innilega til hamingju.

Fyrri greinSmitum fjölgar á Suðurlandi
Næsta greinLeikholti lokað vegna myglu