Starfsfólk Friðheima gaf björgunarsveitunum hjartastuðtæki

Á dögunum afhenti starfsfólk garðyrkjustöðvarinnar Friðheima í Reykholti Björgunarsveit Biskupstungna og Björgunarsveitinni Ingunni tvö fullsjálfvirk hjartastuðtæki að gjöf.

„Við höfum safnað saman í sjóð sem kallast þjórféssjóður. Í Friðheimum er ekki óskað eftir þjórfé, hvorki í formi söfnunarbauks né óskað eftir því við uppgjör í lok þjónustu. Aftur á móti eru gestir okkar ítrekað að skilja eftir þjórfé með þökkum fyrir góða þjónustu og upplifun,“ segir Rakel Theodórsdóttir, starfsmaður Friðheima.

„Þessir peningar hafa safnast saman og á síðasta ári tókum við starfsfólkið fund varðandi þennan sjóð og ákváðum að láta gott af okkur leiða og gefa þá upphæð sem mundi safnast næsta árið til góðgerðasamtaka.“

Rakel segir að það sem hafi haft áhrif á ákvörðun þeirra sé þátttaka Friðheima í verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta.

„Í því verkefni eru ferðaþjónustufyrirtæki hvött til að taka þátt í skýrum og einföldum aðgerðum til að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir. Lögð er áhersla á að fjórir þættir séu hafðir að leiðarljósi í þessum aðgerðum. Tryggja öryggi gesta, virða réttindi starfsfólks, hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið og ganga vel um og virða náttúruna. Við fórum að hugsa um það hvaða félag á svæðinu gæti átt við einhvern af þessum flokkum. Hvernig við gætum látið gott af okkur leiða hvað varðar öryggi þeirra gesta sem heimsækja eitt fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins og sem gæti gagnast samfélaginu í heild líka,“ segir Rakel og í framhaldinu höfðu þau samband við formenn björgunarsveitanna.

„Það kom í ljós að þau ættu ekki hjartastuðtæki en mikil þörf væri fyrir þau. Við lögðum einnig til þá hugmynd hvort væri hægt að staðsetja þau þannig að almenningur hefði góðan aðgang að þeim hvenær sem væri tíma sólarhringsins. Formenn sveitanna tóku vel í það og eru að útfæra þann möguleika innan sinna sveita. Það er ómetanlegt fyrir okkur starfsfólkið, gestina okkar og nærsamfélagið í heild að eiga svona flottar björgunarsveitir að sem eru ávalt í viðbragðsstöðu hvenær sem er sólarhringsins. Þessar sveitir vinna svo ótrúlega óeigingjarnt starf og þurfa auðvitað að vera vel tækjum búnar og er það okkur heiður að geta lagt lóð á vogarskálarnar til þess,“ sagði Rakel að lokum.

Hjartastuðtækin eru keypt af sölu- og þjónustufyrirtækinu HealthCo sem kom einnig á afhendinguna og kynnti tækið. Þetta eru fullsjálfvirk hjartastuðtæki og eru útbúin þannig að almenningur á auðveldlega að geta notað þau þar sem það eina sem þarf gera er að kveikja á tækinu og svo leiðbeinir tækið manni áfram með tali á íslensku.