Starfsemi Kötlu jarðvangs í uppnámi

Katla jarðvangur, byggðaþróunarverkefnið í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellsýslu, er í uppnámi eftir að skrifstofa stækkunarmála ESB tilkynnti um ákvörðun sína að hætta öllum IPA-verkefnum sem hafin voru á Íslandi.

Háskólafélag Suðurlands, sem hóf sérstakt átaksverkefni í tengslum við jarðvanginn með styrk frá ESB á síðasta ári, hefur ekki fengið hann greiddan að stórum hluta og óvissa ríkir með um 44 milljónir króna sem eftir voru til greiðslu af samningnum, sem var til tveggja ára.

„Ég vil helst ekki trúa því að þetta sé rétt,“ segir Sigurður Sigursveinsson, forstöðumaður Háskólafélags Suðurlands. Hann hafi talið að um væri að ræða samning tveggja lögaðila, Háskólafélagsins annars vegar og ESB hinsvegar, og íslenska ríkið ætti ekki beina aðkomu að samningnum. Sigurður segist bíða frekari frétta vegna þessa frá skrifstofu IPA styrkja ESB í Brussel, en í gær hafði hann enn ekki fengið neinar upplýsingar þaðan. Sigurður segir verkefnið í fullkomnu uppnámi og verði niðurstaðan sú að styrkurinn fáist ekki greiddur muni það hafa slæm áhrif á starfsemi Háskólafélagsins og samstarfsaðila í sýslunum tveimur.

Ráðnir hafi verið þrír starfsmenn í fullu starfi til verkefnisins, sem sumir hafi tekið sér launalaust leyfi frá öðrum störfum. Heildarkostnaður við verkefnið var áætlaður 120 milljónir króna, þar af var IPA styrkurinn 90 milljónir.

Sigurður lýsir verkefninu sem hlaut styrkinn sem fjölþættu byggðarþróunarverkefni. Þannig hafi einn þáttur þess verið uppbygging áningastaða, annar gerð fræðsluefnis, þriðji lúti að markaðssetningu og stefnumörkun Kötlu jarðvangs og að auki hafi verið farið af stað með námskeiðahald til að efla mannauð á svæðinu sem um ræðir.

Greiðslur vegna þessa hafi átt að vera þrjár, ein fékkst fljótlega að undirskrift samningsins lokinni, önnur greiðsla ætti hinsvegar að vera að berast um þessar mundir og lokagreiðsla, við lok samningstímabilsins, um mitt næsta sumar.

Fyrri greinRafmagnaður sigur í framlengdum nágrannaslag
Næsta greinHörkukeppni framundan hjá sterkustu konum landsins