Starfsemi HSu gekk vel þrátt fyrir erfiðleika

Starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, HSu, á árinu 2010 gekk vel þrátt fyrir ýmsa erfiðleika.

Stofnuninni var gert að draga saman útgjöld um 130 milljónir króna eða um 6,7% frá árinu 2009. Skv. bráðabirgðaniðurstöðu er útlit fyrir að það hafi tekist og að reksturskostnaður stofnunarinnar verði í samræmi við fjárlög ársins.

Verulegur árangur náðist t.d. í innkaupum og notkun á ýmsum rekstrarvörum, lyfjum og rannsóknum. Kostnaður við ýmsar rekstrarvörur lækkaði um 15 % frá fyrra ári, þar af lyfjakostnaður um 17 % og rannsóknum fækkaði um 12 %. Þessi árangur er til viðbótar við verulegan árangur í þessum málum á árinu 2009.

Heildarvelta ársins 2010 var um 2.455 milljónum króna, þar af nam rekstrarframlag ríkisins 2.065 milljónum eða um 85 % af heildarkostnaði.

Stærsti kostnaðarliðurinn var launakostnaður, Hann var um 1.780 milljónir króna. Annar kostnaður var 658 milljónir og sértekjur 389 milljónir.

Í tilkynningu frá framkvæmdastjórn HSu segir að full ástæða sé til að þakka öllu starfsfólki stofnunarinnar fyrir frábært starf á árinu. Með samstilltu átaki hafi tekist að ná verulegum sparnaði á ýmsum þáttum í rekstri stofnunarinnar og halda rekstri hennar innan ramma fjárlaga.

Fyrri greinEinn látinn hætta akstri
Næsta greinFrábær sigur ungmennaliðsins