Starfsemi gistiheimilisins fer vel af stað

Í vor keyptu Ingvar Jóhannesson og Carina Margareta Ek gamla læknisbústaðinn við Mýrarbrautina í Vík í Mýrdal og reka þar nú gistiheimilið Guesthouse Carina með tíu herbergjum.

Ingvar lagðist í talsverða vinnu við að gera húsið upp og má segja að nú sé bæjarprýði af því, og það iðar af lífi á ný.

„Það varð að gera allmiklar breytingar, bæði að innan sem utan,“ segir Ingvar. Húsið var áður tvær íbúðir, en hann braut á milli og bætti við baðherbergjum og úr varð fínasta gistihús. Að utan þurfti að sandblása, skipta um gler og pússa og mála.

Þetta hús á sér mikla sögu að sögn Ingvars. Í því var hreppskrifstofa, tannlæknastofa og jafnvel sparisjóður um tíma í kjallaranum. Ótal kennarar hafa búið þar í gegnum tíðina.

Nýja gistiheimilið var svo opnað í júlí og fékk strax góðar viðtökur, og enn er þar mikið að gera. „Það segir mikið um eftirspurnina og ferðamennskuna hér,“ segir Ingvar.

Fyrri greinHamar réð ekki við Chelsie
Næsta greinJörfi styrkir Setrið