Starfsemi félagsmiðstöðvar færð í vor

Ákveðið hefur verið að færa rekstur félagsmiðstöðvar unglinga á Hellu í grunnskólann á Hellu og verður starfsemin í höndum starfsmanna grunnskólanna.

Félagsmiðstöðin hefur verið í Verkalýðshúsinu og mun verða til vors. Dregið verður úr starfseminni þar sem ekki hefur verið mikil notkun á húsnæðinu á meðan ætlað var að opið væri tvisvar í viku. Því verður breytt í tvö kvöld í mánuði yfir vetrarmánuðina og á móti verða uppákomur á vegum skólans fyrir nemendur.

Málefni félagsmiðstöðvarinnar voru rædd á fundi sveitarstjórnar fyrir skömmu en áður höfðu 42 nemendur Grunnskólans á Hellu afhent oddvita Rangárþings ytra undirskriftalista þar sem hvatt var til að efla starfið þar á ný.

Á fundi sveitarstjórnar gagnrýndi minnihluti D-listans aðgerðarleysi meirihlutans í málefnum félagsmiðstöðvarinnar og að ekkert samráð hafi verið haft við nýskipað ungmennaráð eða foreldrafélög. Átaldi D-listinn meirihluta Á-listans fyrir seinagang í málinu.

Þessu mótmælti meirihlutinn og sagði málefni félagsmiðstöðvarinnar í góðum farvegi og að aðgerðir meirihlutans muni efla innra starf félagsmiðstöðvar til langframa og umtalsverðar fjárhæðir munu sparast með þeirri hagræðingu að færa starfsemina úr verkalýðshúsinu yfir í grunnskólann.