Starf framkvæmdastjóra lagt niður

Starf framkvæmdastjóra Leigubústaða Árborgar ehf verður lagt niður og stjórnarmönnum í félaginu fækkað úr þremur í einn.

Bæjarráð Árborgar samþykkti í gær breytingar á rekstri félagsins en í framhaldinu mun bæjarstjórn Árborgar kjósa stjórnarmann sem getur jafnframt gegnt starfi framkvæmdastjóra eftir því sem við getur átt. Sigmundur Stefánsson hefur verið framkvæmdastjóri Leigubústaða Árborgar sem er einkahlutafélag í eigu sveitarfélagsins.

Í greinargerð með tillögu bæjarráðs kemur fram að sveitarfélagið hafi á undanförnum mánuðum unnið að endurskipulagningu og hagræðingu margvíslegra þátta í starfsemi sinni. Dagleg starfsemi Leigubústaðanna hefur um langt skeið verið samtvinnuð starfsemi stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Þannig hafa einstök svið innan stjórnsýslu sveitarfélagsins annast málefni er varðar félagið, bæði sem lýtur að daglegum rekstri sem og samskiptum og þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Með tillögunni er leitast við að nýta betur þá aðstöðu sem fyrir hendi er hjá sveitarfélaginu og auka með því skilvirkni.

“Leiðir af framangreindu umtalsvert hagræði sem og fjárhagslegur sparnaðar til lengri tíma litið,” segir í tillögunni sem var samþykkt samhljóða.