Stálu skotvopni og miklu magni af skotfærum

Fólkið sem handtekið var í gömlu sumarhúsi í Árborg í gærkvöldi er grunað um að hafa brotist inn í sumarhús og vélaskemmu í sveitarfélaginu í liðinni viku, þar sem skotvopni og miklu magni af skotfærum var stolið.

Fólkið var handtekið í gærkvöldi og naut lögreglan á Suðurlandi liðsinnis sérsveitar og samningateymis Ríkislögreglustjóra við handtökuna. Fyrr í gær hafði fólkið verið á ferðinni, vopnað haglabyssu, án þess þó að ógna fólki með henni.

Í innbrotinu í síðustu viku var einnig stolið verkfærum, húsmunum, fatnaði og reiðtygjum. Áætlað verðmæti þessara muna er á þriðju milljón króna. Megnið af þýfinu er fundið.

Vegna þess máls er nú unnið að húsleitum á handtökustaðnum en einnig á öðrum stöðum sem taldir eru tengjast meintum brotamönnum. Grunur leikur á að aðilar þessir tengjist fleiri þjófnaðarmálum liðinna vikna.

Skýrslur verða teknar af viðkomandi, eftir því sem húsleitum vindur fram, þegar kemur fram á daginn en ekkert þeirra var í ástandi til skýrslugjafar í gærkvöldi eða nótt.

TENGDAR FRÉTTIR:
Sérsveitin kölluð til vegna handtöku í Árborg

Fyrri greinMiðflokkurinn þakkar stuðninginn
Næsta greinLést á veiðum við Krakatind