Stálu öllu víni af staðnum

Fimm ungmenni brutust inn í veitingahúsið Hafið bláa við Ölfusárósa á sjöunda tímanum í morgun og tóku þaðan allt það áfengi sem var að finna á staðnum.

Vegfarendur urðu varir við þjófnaðinn og létu lögregluna á Selfossi vita.

Lögreglu grunaði að för ungmennanna væri heitið í átt til Reykjavíkur og hóf þegar eftirför auk þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu undirbjó „móttöku“ fyrir þjófana. Ungmennin óku síðan í flasið á lögreglu á mótum Hafravatnsvegar og Suðurlandsvegar.

Einn var færður í fangageymslu á Selfossi, en þar með var orðinn húsfyllir þar því að þar eru vistaðir menn sem grunaðir eru um aðild að fíkniefnamáli. Því þurftu fjögur ungmennanna að gista fangageymslur í Reykjavík.

Minniháttar skemmdir voru unnar á veitingastaðnum en meirihluti þýfisins hefur verið endurheimtur.

Málið er í rannsókn og fólkið verður yfirheyrt í dag.

Fyrri greinAðstæður góðar í Landeyjahöfn
Næsta greinHelgi Haralds: Góð stefna en hvenær hefjast framkvæmdir?