Stálu frá gestum á tjaldsvæðinu á Selfossi

Tveir karlmenn og ein kona voru handtekin skömmu eftir hádegi á fimmtudag í tengslum við þjófnaði á tjaldsvæði Gesthúsa á Selfossi.

Karlmennirnir hafa margoft komið við sögu lögreglu vegna þjófnaða og annara brota. Við húsleit á dvalarstað þeirra fundust ýmsir munir sem glöggir lögreglumenn könnuðst við úr innbrotum.

Fólkið stundaði það meðal annars að fara um tjaldsvæði og stela hlutum sem fólk geymdi utan við tjöld sín. Að loknum yfirheyrslum var fólkið látið laust.

Á tímabilinu 12. júlí til 11. ágúst hurfu 43 girðingastaurar frá hesthúsi við Norðurtröð 24 á Selfossi. Þetta voru galvaniseruð rör 60 mm í þvermál og 180 sm á lengd. Verðmæti um 100 þúsund krónur.

Samsung 40 tommu flatskjá, verkfærum og áfengi var stolið úr sumarbústað í Úthlíð á tímabilinu 9. til 16. ágúst síðastliðinn. Brotist var inn í bústaðinn, sem er við Hellisgötu, með því að spenna upp glugga. Engar vísbendingar eru um hver var að verki.

Þeir sem veitt geta upplýsingar um þjófnaðinn við Norðurtröð eða innbrotið í Úthlíð eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 444 1010.

Fyrri greinÓk of hratt, ölvaður og próflaus á stolnum bíl
Næsta greinBað ölvaðan mann um að aka