Stal úr bílum á Selfossi

Um klukkan þrjú í nótt barst lögreglunni á Selfossi tilkynning um mann sem væri að fara inn í bíla við Reynivelli á Selfossi.

Lögreglumenn fóru á að huga að þessu og fundu ungan karlmann sem lýsingin átti við. Hann var með smámynt og fleira á sér sem grunur var um að hann hefði stolið úr bílum í hverfinu. Tvær tilkynningar hafa borist um innbrot í bíla sem stóðu við hús á Sólvöllum og Birkivöllum. Í fórum unga mannsins fundust munir sem tilheyrðu þessum bílum.

Maðurinn var færður í fangageymslu og verður yfirheyrður um brot þau sem hann er grunaður um. Ljóst þykir að hann hafi farið inn í fleiri bíla á þessum slóðum þó ekki hafi borist fleiri tilkynningar.

Fyrri greinEinar Már, Huldar Breiðfjörð og Bjartmar á Bókasafninu
Næsta greinAfturkallaði ekki aðstoð björgunarsveitar