Stal söfnunarbauk í Hveragerði

Helgin var til þess að gera róleg hjá lögreglunni á Selfossi en tvö þjófnaðarmál komu inn á borð lögreglu auk þess sem sjö ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur.

Maður kom við á bensínstöð Shell í Hveragerði og stal þar söfnunarbauk. Á eftirlitsmyndavél mátti greina að þar var á ferð sami maður og varð uppvís að þjófnaði á söfnunarbaukum á Selfossi og höfuðborgarsvæðisins fyrr í vetur. Málið er í rannsókn.

Þrettán ára gamall drengur var staðinn að því að stela spjaldtölvu í Tölvulistanum á Selfossi. Drengurinn sem er af höfuðborgarsvæðinu og vistaður á fósturheimili á Suðurlandi var á ferð með umsjónarmanni og komu þeir við í Tölvulistanum þar sem drengurinn stakk tölvunni inn á sig og gekk út. Mál hans var afgreitt í samráði við barnaverndaryfirvöld á höfuðborgarsvæðinu.

Hálkan er að hverfa sem segir strax til sín en engin hálkuslys hafa verið skráð um helgina en eitt minni háttar umferðaróhapp varð á Selfossi um helgina.

Sjö ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur þessa helgi einn fyrir akstur sviptur ökurétti og einn fyrir að að aka um á ótryggðum bíl.