Stal óeirðabúningum af lögreglustöðinni

Lögreglan upplýsti innbrot á lögreglustöðina á Selfossi um síðustu helgi eftir húsleit á gistiheimili í bænum.

Lögreglan hafði fengið upplýsingar um að á gistiheimilinu væri maður sem væri að selja fíkniefni. Lögreglan gerði húsleit í herbergi mannsins og þegar þangað var komið var maðurinn ekki á staðnum en fannst, auk fíkniefna, ýmis búnaður frá lögreglu.

Við athugun kom í ljós að brotist hafði verið inn í bílskúr lögreglunnar við Árveg og búnaðurinn tekinn þaðan. Meðal þess var fatnaður óeirðahóps lögreglunnar.

Lýst var eftir manninum og fann lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hann í Reykjavík og á dvalarstað hans þar fannst meira af fíkniefnum.

Maðurinn, sem er 27 ára og góðkunningi lögreglunnar, var fluttur til yfirheyrslu á Selfossi. Þar viðurkenndi hann að eiga þátt í málinu og var munum lögreglunnar komið til skila.

Málið telst upplýst og verður maðurinn ákærður í framhaldinu.