Miðbær Selfoss hefur gefið út nýtt Miðbæjarkort sem sameinar gjafakort og vildarkort í einni stafrænni lausn. Kortið er innleitt í samstarfi við Kristján Eldjárn og hugbúnaðarfyrirtæki hans, SmartCard, og er nú aðgengilegt öllum.
„Við vildum gera þetta einfaldara fyrir alla,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, verkefnastjóri hjá Miðbæ Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.
„Við höfum undanfarin ár verið með hefðbundin gjafakort sem virkuðu eins og debetkort. Þau hafa reynst ágætlega, en við sáum líka að þau týndust oft eða gleymdust heima, jafnvel áður en inneignin var nýtt. Okkur langaði að taka þetta skrefinu lengra og gera upplifunina miklu þægilegri.“
Miðbæjarkortið er alfarið stafrænt og geymist í símaveskinu. „Flestir eru með símann á sér allan daginn, þannig að Miðbæjarkortið er í raun alltaf við höndina,“ bætir Davíð Lúther við.
Meira en gjafakort, afslættir og sérkjör í miðbæ Selfoss
„Við köllum þetta Miðbæjarkortið, því það er miklu meira en gjafakort. Þetta er líka vildarkort þar sem handhafar fá afslætti og sérkjör í fjölmörgum verslunum og veitingastöðum í miðbænum, sem dæmi er 50% afsláttur á fjölskyldutónleika á Þorláksmessu með bræðrunum Ingó & Gumma,“ segir Davíð Lúther ennfremur og bendir á að þegar fyrirtæki gefa Miðbæjarkortið til starfsmanna, sem dæmi í jólagjöf, sé það skattfrjáls gjöf, öfugt við hefðbundin bankakort sem flokkast sem laun og bera skatta.
Íslensk hugbúnaðarlausn þróuð á Selfossi
Lausnin var hönnuð og þróuð af Kristjáni Eldjárn og fyrirtækinu SmartCard.is.
„Kristján er ótrúlega fær forritari, og það skemmir ekki fyrir að hann er líka rekstraraðili í miðbænum, eigandi Konungskaffi ásamt Silju Hrund eiginkonu hans. Hann þekkir því vel þarfir bæði verslana og viðskiptavina. Það var frábært að geta keypt þessa lausn sem er þróuð hér heima,“ segir Davíð Lúther.
Auðveld uppsetning og aðstoð á Konungskaffi
Uppsetning á Miðbæjarkortinu er einföld en allir geta sótt það á vef Miðbæjarins.
„Flestir ættu að geta sett kortið upp á nokkrum sekúndum. Fyrir þá sem vilja eða þurfa hjálp verða starfsmenn á Konungskaffi til staðar næstu daga til að aðstoða,“ segir Davíð Lúther að lokum.

