Stærsta lofthreinsistöð heims á Hellisheiði

Lofthreinsistöðin Mammoth við Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd/ON

Stærsta lofthreinsistöð heims hefur verið gangsett í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar á Hellisheiði. Svissneska fyrirtækið Climeworks á stöðina, sem heitir Mammoth, og mun hún geta fangað allt að 36 þúsund tonn af koldíoxíði (CO2) á ári beint úr andrúmsloftinu.

Fyrir í Jarðhitagarði ON er starfandi lofthreinsistöðin Orca en Mammoth stöðin er um tífalt stærri.

Climeworks á í samstarfi við Carbfix um niðurdælingu og varanlega bindingu á CO2 í bergi neðanjarðar. Markmið Climeworks er að fjarlægja það magn koltvísýrings sem vísindafólk metur nauðsynlegt til að ná loftslagsmarkmiðum heimsins, auk þess að draga stórkostlega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„Orka náttúrunnar og Climeworks hafa átt í góðu samstarfi frá því Climeworks hóf starfsemi á Íslandi árið 2017 í Jarðhitagarðinum. Mammoth verður umtalsverð og góð viðbót þar en tilgangur Jarðhitagarðs er að styðja við framsækin fyrirtæki og fullnýta afurðir Hellisheiðarvirkjunar á ábyrgan og umhverfisvænan hátt,“ segir í tilkynningu frá ON.

Orka náttúrunnar hefur dregið verulega úr losun CO2 frá Hellisheiðarvirkjun með föngun og förgun í samvinnu við Carbfix og markmiðið er að virkjunin verði sporlaus árið 2025.

Fyrri greinMáni með tvö í sigri Hamars
Næsta greinMiðbæjarkötturinn Snuðra heillar alla