„Stærsta leit á landinu til margra ára“

Björgunarsveitarmenn frá Eyrarbakka við leit í dag. Ljósmynd/Björgunarsveitin Björg - Ægir Guðjónsson

Leitin að flugvélinni sem hvarf, líklega yfir Suðurlandi, í dag stendur enn yfir og mun halda áfram af fullum þunga í nótt og á morgun – þangað til vélin finnst eða annað verður ákveðið.

„Þetta er stærsta leit til margra ára, það eru um 500 manns úti núna en samtals hefurá áttunda hundrað björgunarsveitarfólks komið að leitinni í dag,“ sagði Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við sunnlenska.is.

„Staðan er óbreytt, við förum inn í nóttina og höldum áfram að leita af fullum þunga. Það er búið að óska eftir mannskap frá öllum björgunarsveitum á landinu til þess að koma inn og leysa af leitarfólk í fyrramálið. Það hafa verið ágætis aðstæður til leitar, skafrenningur á heiðum en það er versnandi veðurspá í fyrramálið og á morgun,“ bætir Davíð við.

Leitarsvæðið er stórt en búið er að þrengja það niður að Úlfljótsvatni og Þingvallavatni og heiðunum í kring.

„Það var greint frá því í kvöld að flugvélar hafi greint neyðarboð við Kleifarvatn en það hefur komið í ljós að neyðarboðið tengdist þessu máli ekki neitt og leit hefur verið hætt á Reykjanesi. Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru enn við leit og við beitum öllum tiltækum ráðum til leitar, erum með gönguhópa, dróna, báta, bíla, sleða, fjórhjól og snjóbíla. Þetta er stórt svæði og lítið af vísbendingum,“ segir Davíð og bætir við að aðgerðin sé mjög umfangsmikil.

„Henni er stjórnað af mörgum stöðum á landinu. Það er til dæmis fjarvinna á Norðurlandi, aðgerðastjórnir á Selfossi og á Vesturlandi en leitin er á forsjá Landhelgisgæslunnar og stýrt úr Skógarhlíðinni í Reykjavík.“

Fyrri greinBragi sækist eftir oddvitasætinu á D-listanum
Næsta greinFjárfesting í fólki, samfélaginu og framtíðinni