Stærsta bólusetningarvikan hingað til

Bólusetningarteymi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi að störfum. Ljósmynd/HSU

Gert er ráð fyrir því að um það bil 2.300 Sunnlendingar fái bólusetningu vegna COVID-19 í þessari viku.

Margrét Björk Ólafsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á HSU, sagði í samtali við sunnlenska.is að um sé að ræða stærstu bólusetningarvikuna á Suðurlandi hingað til. HSU fær 2.280 skammta af bóluefni í þessari í viku; 1.100 frá Astra Zeneca, 820 frá Pfizer og 360 frá Jansen.

Í vikunni stendur til að bólusetja 60 ára og eldri, einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og heilbrigðisstarfsfólk.

„Það mun ekki nást að bólusetja alla með undirliggjandi sjúkdóma þessa vikuna en við munum halda áfram næstu vikurnar að boða þann hóp. Farið er eftir listum sem Embætti landlæknis hefur gefið út og eftir magni bóluefnis sem okkur er úthlutað í viku hverri,“ segir Margrét, en þeir sem eiga að mæta í bólusetningu munu fá boðun í símann sinn.

Fyrri greinSextán í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinOliver ökklabrotnaði á fyrstu æfingu