Stærð Hamars orðin flöskuháls í uppbyggingu verkmenntunar

Verknámsaðstaða FSu í Hamri var stækkuð til muna á síðasta áratug en viðbyggingin var tekin í notkun árið 2017.

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga ræddi stöðu verknáms við Fjölbrautaskóla Suðurlands á síðasta fundi sínum en þar kom fram að mikilvægt sé að stækka verknámshús skólans, Hamar.

Vorið 2023 útskrifuðust 54 námsmenn af verknámsbrautum skólans og nú er svo komið stærð húsnæðis verkmenntahluta FSu er orðin flöskuháls í frekari uppbyggingu verkmenntunar í landshlutanum.

„Í Sóknaráætlun Suðurlands kemur skýrt fram mikilvægi og gildi verkmenntunar í byggðaþróun á Suðurlandi og stjórn SASS hvetur ríkið til að ráðast sem fyrst í frekari uppbyggingu við skólann,“ segir í ályktun stjórnar SASS.

Nemendum hafnað í húsasmíði og rafvirkjun
Að sögn Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara, er verknámshúsið mis mikið nýtt eftir námsbrautum en mikil aðsókn er í verknám á komandi haustönn. Mesta aðsóknin er í húsasmíði og hefur þurft að hafna nemendum sem sóttu um þar og sömuleiðis nemendum í rafvirkjun.

„Til að geta kennt meira þarf bæði leyfi til að ráða fleiri kennara og fá þar með meira fjármagn til reksturs verknámsins. Verknámið er mun dýrara en bóknám sem skýrist af fjölda nemenda í hverjum námshópi. Það er einnig mikilvægt að verðandi nemendur átti sig á að það þarf að uppfylla grunnkröfur um frammistöðu úr fyrra námi þegar sótt er um nám í verknámi,“ sagði Olga Lísa í samtali við sunnlenska.is.

Hún ítrekar að fjárframlög þurfi að haldast í hendur við stækkun húsnæðis og kaupa á búnaði, sem sífellt er að breytast og þróast í verknámi og svo hægt sé að ráða fleiri kennara

„Það er vinna í gangi í menntamálaráðuneytinu um heildaráætlun um þarfir á byggingaframkvæmdum í framhaldsskólum sem ég vona að við lendum inn í þegar sú áætlun verður raungerð,“ sagði Olga Lísa ennfremur.

Fyrri greinÉg vil fara „Upp í sveit“
Næsta greinFramleiða hampte úr íslenskum iðnaðarhampi