Staðgreiddi stóra sekt á Mýrdalssandi

Bíllinn var á 161 km/klst hraða. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan á Suðurlandi kærði 30 ökumenn fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. Einn þeirra, erlendur ferðamaður, var stöðvaður á bílaleigubíl á Mýrdalssandi á 161 km/klst hraða.

Leyfður hámarkshraði þar er 90 km/klst og greiddi ökumaðurinn 230.000 króna sekt á staðnum, með 30% afslætti samtals 172.500 krónur, auk þess sem hann var sviptur ökurétti í tvo mánuði.

Annar ökumaður sem stöðvaður var á Suðurlandsvegi við Dalsel í Rangárþingi var á 123 km/klst hraða reyndist ölvaður og lauk þar með akstri hans þann daginn. Málið bíður niðurstöðu blóðsýnarannsóknar. Sama á við um mál ökumanns sem stöðvaður var á Suðurlandsvegi við Landvegamót á 113 km/klst hraða, en hann reyndist sviptur ökurétti og að auki undir áhrifum fíkniefna.

Tveir aðrir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og reyndust báðir með fíkniefni í fórum sínum. Aðrir tveir eru grunaðir um ölvun við akstur.

Fyrri greinHundur beit barn í andlitið
Næsta greinHamar og Selfoss mætast í bikarnum