„Staðfesting á því að við séum að gera góða hluti“

Fulltrúar Álfheima með viðurkenninguna ásamt Katrínu Magnúsdóttur verkefnisstjóra hjá Landvernd og Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Á ráðstefnu Landverndar sem fór fram í byrjun febrúar hlaut leikskólinn Álfheimar á Selfossi heiðursviðurkenningu fyrir vel unnin störf í verkefninu Skólar á grænni grein, sem einnig er þekkt sem Grænfánaverkefnið.

Álfheimar hafa verið með í verkefninu frá árinu 2003 og eiga von á sínum níunda grænfána nú í vor. Skólinn er á meðal þeirra tveggja leikskóla sem hafa verið lengst með í verkefninu og hafa fengið grænfánann afhentan oftast hér á landi.

„Árið 2000 tók starfsfólk Álfheima þátt í verkefninu Vistvernd í verki græn fjölskylda. Í framhaldi af því var farið að undirbúa að Álfheimar yrðu skóli á grænni grein. Í júní 2004 fengu Álfheimar fyrsta grænfánann afhentan,“ segir Jóhanna Þórhallsdóttir, leikskólastjóri á Álfheimum, í samtali við sunnlenska.is

„Grænfánaninn er alþjóðlegt merki um gott umhverfisstarf í skólum og skipar vistvernd í verki stóran sess í starfi skólans. Grænfáninn er afhendur til tveggja ára í senn og fékk leikskólinn hann endurnýjaðan 2006, 2008, 2010, 2014, 2016 og 2018,“ segir Jóhanna.

Hvetur okkur áfram
„Að fá svona viðurkenningu hvetur okkar til að halda áfram því starfi sem við höfum verið að vinna að í umhverfismennt. Það er gott að fá viðurkenningu því það er staðfesting á því að við séum að gera góða hluti,“ segir Jóhanna að lokum.

Á ráðstefnu Landverndar var fjallað um þær áskoranir sem fylgja skólastarfi á tímum loftslagsbreytinga og var sjónum beint að valdeflandi aðferðum og verkfærum sem nota má með nemendum.

Fyrri greinÖruggur sigur Hamars
Næsta greinSelfoss byrjar Lengjuna á sigri