„Staðfesting á sköpunarkrafti og frumleika“

Sunna Björk Mogensen frá Gagarín og Vignir Guðjónsson hjá Skyrlandi sjást hér hjá gagnvirka veggnum sem hefur vakið mikla athygli. Ljósmynd/Aðsend

Skyrland, sýningin um sögu skyrs í nýja miðbænum á Selfossi, hefur á undanförnum vikum hlotið alþjóðleg hönnunarverðlaun fyrir upplifunarhönnun og gagnvirka miðlun.

Sýningin hlaut gullverðlaun í flokknum Gagnvirk Miðlun hjá Indigo hönnunarverðlaununum í Istanbúl og bronsverðlaun í sambærilegum flokki á á Evrópsku hönnunarverðlaununum sem afhent voru í síðustu viku í Tallin í Eistlandi. Þetta er þriðja viðurkenningin sem Skyrland hefur hlotið á stuttum tíma, en í apríl hlaut sýningin FÍT verðlaunin fyrir gagnvirka miðlun.

„Þessi verðlaun eru ánægjuleg viðurkenning, og um leið staðfesting á þeim sköpunarkrafti og frumleika sem einkennir sýninguna,“ segir Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skyrlands.

Skyrland er upplifunarsýning í Mjólkurbúinu í miðbæ Selfoss og fjallar um skyr og matarmenningu Íslands í fjölbreyttum og frumlegum innstillingum. Sýningin reynir á öll skilningarvit því gestir fá að horfa, snerta, þefa, hlusta, sjá og smakka.

Hönnun Skyrlands var í höndum Snorra Freys Hilmarssonar, Gagarín og fleiri sérfræðinga, en Verkstæðið sá um smíði og uppsetningu leikmynda og sýningaratriða.

Fyrri greinSelfoss mætir meisturunum og Ægir fer norður
Næsta greinAxel Björgvin ráðinn framkvæmdastjóri fjármála