„Staðan kallar á samstillt átak“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) skrifuðu með fleirum undir rammasamninginn. Mynd/Birgir Breiðfjörð

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti í dag markmið um aukið framboð af húsnæði á næstu árum. Í máli hans kom fram að byggja þarf um 35 þúsund íbúðir um land allt á næstu tíu árum.

„Eitt stærsta áherslumálið í sáttmála ríkisstjórnarinnar er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær miklu sveiflur sem hafa einkennt hann síðustu ár. Afleiðingar þessara sveiflna eru meðal annars þær að kynslóðir fyrstu kaupenda eiga erfitt með að komast inn á húsnæðismarkað. Staðan kallar á samstillt átak og ég fagna því að ríki og sveitarfélög hafi nú náð saman um sameiginlega sýn á mikilvægustu verkefnin framundan,“ segir Sigurður Ingi.

„Ljóst er að byggja þarf 35 þúsund íbúðir um land allt á næstu tíu árum. Það er sérstaklega ánægjulegt að ríki og sveitarfélög hafa sammælst um að af heildaruppbyggingunni skuli 30% vera hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði og 5% félagsleg húsnæðisúrræði til að bæta stöðu viðkvæmra hópa á húsnæðismarkaði. Sérstök áhersla verður því á að byggja ríflega 12 þúsund hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði,“ bætir Sigurður við.

Sameiginleg sýn á aðgerðir
Fram til þessa hefur vantað skýra sýn hversu margar íbúðir þarf að byggja á hverju ári. Í fyrsta sinn hafa ríki og sveitarfélög gert með sér samkomulag um sameiginlega sýn á aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði til tíu ára, 2023-2032.

Sigurður Ingi, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) skrifuðu með fleirum undir rammasamninginn. Samningurinn byggir m.a. á niðurstöðum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, sem kynntar voru í maí og skipaður var fulltrúum ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.

Tilgangur rammasamningsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins til skemmri og lengri tíma og stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu tíu árum.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að samningurinn sé mikilvægur áfangi í nauðsynlegri vegferð til að tryggja nægt lóðaframboð, sem mætir þeirri miklu eftirspurn eftir fjölbreyttu íbúðarhúsnæði sem nú er fyrir hendi og fyrirsjáanleg er næstu árin.

„Við verðum að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær sveiflur sem ógna stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Næstu skref verða að sveitarfélögin sjálf munu nú gera samninga við ríkið á grundvelli þessa rammasamnings þar sem vænta má fjárstuðning frá ríkinu til að tryggja nægt lóðaframboð á þeirra vegum með tilheyrandi innviðauppbyggingu. Sambandið mun styðja við þá samningsgerð og fylgja eftir í góðri samvinnu við HMS þeirri aðgerðaáætlun sem er hluti þessa rammasamnings,“ segir Aldís.

Fyrri greinViðhafnarbragur á hátíðinni í ár
Næsta greinStokkseyringar fengu skell