Staðan á Suðurlandi er góð

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Staðan á Suðurlandi er góð,“ segir í Facebookfærslu lögreglunnar á Suðurlandi. Í dag eru 52 einstaklingar í sóttkví í umdæminu og 12 í einangrun.

Lögreglan segir mikilvægt að virða þær takmarkanir sem í gildi eru til að þessi staða haldist og bendir á að það eru rúmlega tvær vikur í 4. maí og fyrst þá rýmka takmarkanir samkomubanns.

Fólk í bústöðum hélt sig til hlés
Um páskana var mikil umræða um fólk sem ekki „hlýddi Víði“ og fór í sumarbústað. Lögreglan segir að einhver fjöldi hafi verið í sumarbústöðum, einkum í uppsveitum Árnessýslu, en vísbendingar eru um að þeir hafi haldið sig til nokkurs hlés og almennt gætt að sér um að dreifa ekki smiti. Hrósa beri fólki fyrir að hafa í stórum mæli virt tilmæli um ferðatakmarkanir og er það vel.

Lögreglan hefur einnig farið í fjölmargar eftirlitsferðir í verslanir og veitingahús til að kanna hvernig unnið væri með reglur um samkomubann. Almennt er sami metnaður þar og meðal almennings til þess að gera vel.