Staðan á Suðurlandi ekki betri síðan í ágúst

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Enginn er í sóttkví á Suðurlandi í dag eftir að hafa verið útsettur fyrir smiti og aðeins tveir eru í einangrun vegna COVID-19.

Hins vegar eru 105 í sóttkví eftir skimun á landamærum. Einn er í einangrun á Hvolsvelli og einn í Vík í Mýrdal.

Að sögn Elínar Freyju Hauksdóttur, umdæmislækni sóttvarna á Suðurlandi hefur staðan ekki verið svona góð síðan í byrjun ágúst í fyrra. Um miðjan ágúst var svo önnur bylgjan farin af stað.

Á Suðurlandi hefur ekki greinst nýtt innanlandssmit síðan um miðjan janúar en að sögn Elínar Freyju greinast landamærasmitin mjög reglulega, síðast síðastliðinn þriðjudag. Sá einstaklingur var hins vegar með mótefni, þannig að um gamla sýkingu var að ræða.

„Þeir sem greinast með smit á landamærunum stoppa oft stutt við á listanum hjá okkur, þegar fólk greinist með mótefni,“ segir Elín Freyja í samtali við sunnlenska.is. Hún bætir við að staðan á farsóttinni sé góð á Suðurlandi.

Elín Freyja Hauksdóttir. Ljósmynd/hsu.is

Ennþá álag vegna skimana
„Þrátt fyrir að við séum ekki að sligast undan fjölda COVID smitaðra þá er alveg nóg að gera hjá okkur. Við finnum enn fyrir því að fólk hefur frestað reglulegu eftirliti og reynt að sleppa við það að koma til okkar vegna COVID og eru að koma núna, sumir ári seinna en planað var. Það er ánægjulegt að fólk sé að taka upp þráðinn á ný,“ segir Elín Freyja og bætir við að það sé enn heilmikið álag á heilbrigðisstofnanir vegna skimana og nú einnig bólusetnina.

„Það eru verkefni sem við höfum þurft að búa til tíma fyrir og taka starfsmenn úr öðrum störfum til að sinna. Við sinnum þessu með glöðu geði, en vonum að fólk sýni þessu skilning, að þetta getur lengt biðtímann í aðra þjónustu sem við sinnum. Samhugur hjálpar, við erum öll í þessu saman og því hefur þetta gengið svona vel hingað til. Við gerum ekki ráð fyrir öðru en að það geri það áfram,“ segir Elín Freyja.

Bólusetning hefur gengið vel
Bólusetning á Suðurlandi hófst í lok desember og hélt áfram í janúar. Elín Freyja segir að vel hafi gengið að bólusetja og framhald verði á bólusetningum í næstu viku.

„Það hefur gengið vel að bólusetja og það er mikið gleðiefni bæði fyrir okkur og þá sem fá bólusetningu. Við fáum fáa skammta í einu, og ekki einu sinni í hverri viku. Við getum ekkert að því gert og því er erfitt að svara einstaklingum um það hvenær nákvæmlega þau fái bólusetningu. Við viljum bólusetja alla, en förum að sjálfsögðu eftir fyrirmælum sóttvarnalæknis hvað þetta varðar. Í næstu viku fáum við bóluefni til að klára bólusetningar á okkar framlínustarfsfólki og lögreglumönnum. Annars erum við um þessar mundir að vinna okkur niður árgangana, fólk fætt árið 1920 og niður, þar sem þeir elstu fá fyrst,“ segir Elín Freyja að lokum.

Bólusetningarteymi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi að störfum. Ljósmynd/HSU
Fyrri greinÉg get alltaf hlegið að pabba
Næsta greinSunnlensku liðin töpuðu