Staðan óásættanleg fyrir Sólheima

Aðalfundur fulltrúaráðs Sólheima samþykkti ályktun á fundi sínum í dag um samningaviðræður við Árborg um nýjan þjónustusamning.

Ályktun fundarins fer hér á eftir í heild sinni:

Samningaviðræður við Árborg um nýjan þjónustusamning hafa staðið yfir í rúma þrjá mánuði án árangurs. Samningafundir hafa fjallað um upplýsingaöflun og beðið hefur verið eftir niðurstöðum hins nýja SIS-mats til að geta lagt fjárhagslegan grunn að nýjum samningi.

Samninganefnd Sólheima lagði þann 15. febr. fram tillögu að bráðabirgðasamkomulagi vegna ársins 2011 þar sem lögð var áhersla á þrjú atriði: a) greiðslur verði endurskoðaðar m.v. núverandi þjónustuþörf vegna búsetu, dagþjónustu og verndaðrar vinnu, b) aðrar greiðslur taki mið af verðlagshækkunum og c) fjárhagsgrunnur verði leiðréttur um þá skerðingu sem gerð var árið 2009 og fatlaðir íbúar Sólheima þurftu einir að sæta. Árborg hafnaði að öllu leyti þessari tillögu með svarbréfi dags. 7. mars. Engin tillaga hefur verið lögð fram af hálfu Árborgar um lausn málsins.

Sólheimar eru því enn án þjónustusamnings og greiðslur aðeins til 30 daga í senn. Slíkt er með öllu óviðunandi.

Nú liggja fyrir upplýsingar um að greiðslur sem fatlað fólk búsett á Sólheimum á rétt á hafa um árabil verið vanmetnar. Sólheimar hafa ítrekað gert þá kröfu að þetta misræmi verði leiðrétt enda er þjónusta ársins 2011 greidd miðað við þjónustuþörf og forsendur ársins 2002.

Mikil óvissa er um með hvaða hætti rekstur Sólheima verður tryggður. Þessi staða er algjörlega óásættanleg fyrir starfsemi Sólheima, þar sem fram hefur farið brautryðjendastarf í málefnum fatlaðra í yfir 80 ár.

Fulltrúaráð Sólheima skorar á velferðarráðherra að hafa forgöngu um lausn málsins og sveitarfélagið Árborg að axla ábyrgð sína á þeirri stöðu sem upp er komin og vinni sameiginlega að lausn málsins í stað þess að vísa hvor á annan.

Fulltrúaráð Sólheima mun meta stöðu málsins að nýju innan fjögurra vikna.