Stækkun friðlandsins verði frestað

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag að leggja til að frestað verði að stækka friðlandið í Þjórsárverum.

Ekki sé hægt að fjalla um breytingar á friðlandsmörkum fyrr en fram hafa komið tillögur verkefnisstjórnar um vernd- og orkunýtingarmörk þess svæðis sem fer í verndarflokk.

Þar til þessi mál eru komin á hreint leggur sveitarstjórn til að frestað verði að stækka friðlandið, meginhluti Þjórsárvera sé nú þegar friðland og ekki séu nein svæði í hættu þó svo að stækkun svæðisins frestist eitthvað.

Á fundinum í dag hafði sveitarstjórn til umfjöllunar tillögu umhverfis- og auðlindanefndar um friðun Þjórsárvera. Umhverfisstofnun sendi bréf til sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps í lok desember varðandi breytingu á friðlýsingarmörkunum og samsvarandi bréf var einnig sent til sveitarstjórnar Ásahrepps.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemdir við friðlýsingarskilmálana frá 21. júní 2013 að því gefnu að tryggt verði fjármagn til að fylgja þeim eftir.

Gunnar Örn Marteinssonar lagði fram bókun á fundinum í dag þar sem hann segir meðal annars að öll umræða undanfarinna ára um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hafi snúist um svokallaða Norðlingaölduveitu frekar en almenn verndarsjónarmið.

„Það er vægast sagt skondið að sjá og heyra starfsfólk Umhverfisstofnunar og Umhverfisráðuneytis sem fyrir nokkrum mánuðum lagði áherslu á að friðlandsmörkin lægju þannig að útilokað væri að fara í veituframkvæmdir á svæðinu, skuli nú mæla með því að mörkin verði færð þannig að möguleiki sé á að fara í þá framkvæmd í framtíðinni án þess að breyta friðlandsskilmálum,“ segir í bókun Gunnars.

„Með þessari tillögu að breyttum friðlandsmörkum er í raun verið að leita samþykkis sveitarstjórna fyrir veituframkvæmdum á svæðinu. Til þess að geta tekið afstöðu til þess verða að liggja fyrir upplýsingar um framkvæmdina og áhrif hennar,“ bókaði Gunnar ennfremur.

Fyrri greinMarín og Ragnar verðlaunuð
Næsta greinVetrarmyndir á sýningu „Undir stiganum“