Stækkun Búrfellsvirkjunar hagkvæmur kostur

Landsvirkjun er nú að láta skoða möguleika á stækkun Búrfellsvirkjunar í Þjórsá en aukið rennsli í ánni hefur gefið mönnum færi á að dusta rykið af gömlum hugmyndum.

Að sögn Helga Bjarnasonar, verkefnisstjóra hjá Landsvirkjun, er hér um að ræða brýnt og gott mál sem gæti verið komið á framkvæmdastig eftir tvö til þrjú ár.

Það sem verið er að skoða er bygging nýs stöðvarhúss í krikanum inn af núverandi stöðvarhúsi við Búrfell en það er á þeim stað sem Títan-félag Einars Benediktssonar hugðist reisa stöðvarhús.

Að sögn Helga er verið að vinna að hönnun og rannsóknum vegna virkjunarinnar og gætu nánari útlistanir legið fyrir innan nokkurra vikna og þá einnig kostnaðartölur en flest bendir til þess að virkjunin geti verið mjög hagkvæm.

Eru væntingar um að nægilegt af fáist fyrir 70 til 100 MW. “Við eigum ekki von á öðru en að þetta geti farið hratt í gegnum matsferli enda umhverfisáhrif í algjöru lágmarki,” segir Helgi en engar stíflur þarf að reisa vegna virkjunarinnar og núverandi farvegur ætti að duga áfram.