„Stækkar vissulega markhópinn“

„Við höfum alltaf fengið rosalega margar fyrirspurnir um að framleiða vörurnar okkar í fullorðinsstærðum. Við ákváðum að prófa að gera nokkrar peysur á fullorðna og þær vöktu mikla lukku.“

Þetta segir Fanney Svansdóttir sem hannar og prjónar barnaföt undir merkinu Ylur.

Fanney byrjaði að hanna fyrir tæpum þremur árum undir merkinu Ylur og hefur merkið notaði sívaxandi vinsælda allar götur síðan.

„Við höfum verið að taka við sérpöntunum síðan í október en nú eru þær komnar í sölu í vefversluninni okkar. Við höfum fengið góðar viðtökur og þetta stækkar vissulega markhópinn,“ segir Fanney.

Að sögn Fanneyjar eru peysurnar „unisex“ og henta því konum jafnt sem körlum. „Peysurnar hafa verið vinsælar hjá báðum kynjum. Ég er alveg viss um að það eigi eftir að koma fleiri flíkur frá okkur í fullorðinsstærðum þó við séum aðallega að einbeita okkur að barnafötum núna.“


Ljósmynd Katrín Aagestad

Á leið til Parísar
Fanney hefur í nægu að snúast þessa dagana en hún er á leiðinni til Parísar ásamt manninum sínum, Arnari Péturssyni, sem er jafnframt hennar hægri hönd í fyrirtækinu. „Við erum að fara á Trade Show sem heitir Playtime en það er það sambærileg sýning og við fórum á í Danmörku síðastliðið haust.“

„Við vorum valin í hóp tólf nýrra og spennandi merkja sem mynda NEW NOW hópinn. Þessi tólf merki voru valin af franska ritstjóranum Deborah Sfez sem er þekkt og virt nafn í barnatískuheiminum,“ segir Fanney.

Að sögn Fanneyjar mæta fjölmargir blaðamenn á sýninguna, auk þess sem verslunareigendur mæta til að kaupa inn fyrir haust- og vetrarlínuna. „Merkin kynna nýjar línur fyrir haust og vetur. Við erum auðvitað að vinna eftir þessum „slow fashion“ gildum og komum ekki með nýja línur tvisvar eða oftar á ári. Við leggjum áherslu á að skapa klassískar vörur sem endast vel og fara ekki úr tísku,“ segir Fanney.


Ljósmynd Steinrún Ótta Stefánsdóttir

Fanney segir að áhuginn á hönnun þeirra sé mikill. „Við erum búin að fá mikið af tölvupóstum síðustu vikur frá blaðamönnum, verslunareigendum og fólki í framleiðslu. Þetta leggst vel í okkur. Það er gott að hafa reynslu síðan í Danmörku í haust. Maður veit hvernig þetta gengur fyrir sig og nú erum við með aðstöðu á mjög áberandi stað. Þetta NEW NOW verkefni á að gera ný og spennandi merki áberandi, því að þeir vilja að sýningin sé góður stökkpallur.“

Sýningin er dagana 28.-30. janúar. Hægt verður að fylgjast með ferðinni á Snapchat en snappið hjá Yl er Ylur.is.